Jæja jæja.

Er ekki tími til kominn að segja frá því helsta sem á daga mína hefur drifið.

*Um verslunarmannahelgina var lítið gert. Hinn helmingurinn var á brunavakt og má hann því lítið fara frá Selfossinu góða á meðan á henni stendur. En við fórum nú samt á Heimsmeistaramót í Traktorstoffæru á Flúðum. Bara gaman, og litla einkasyninum fannst sko ekki leiðinlegt að sjá alla traktorana. Hann þagði ekki alla leiðina heim. Allt var brumm brumm.

*Rétt eftir verslunarmannahelgina átti eigandi þessa bloggs afmæli. Haldið var smá kvöldkaffi. Margir kítku við. Bara gaman að fá gesti og spjalla.

*Á afmælisdaginn sjálfan DÓ heimilisbíllinn. Blessuð sé minning Möstunnar, hún er sko búin að þjóna okkur vel. Hún var orðin 17 ára (komin með bílpróf) og búin að keyra okkur um 270000 kílómetra. Ég sakna hennar nú svolítið, en bíll kemur í bíls stað. Við fengum okkur nýjan bíl svo í vikunni. Nissan Patrol 95 árgerð. Þetta á að vera gæsabíll og hinn helmingurinn fær að vera á þessu tæki. ÉG er ekki mikið fyrir svona jeppa.

*ÉG skráði mig í prjónaklúbbinn Garnaflækjur um helgina. Þetta er svona saumaklúbbur á netinu. Bara gaman að sjá hvað aðrir jafn skrítnir og ég eru að gera. Þannig að það eiga eftir að koma nokkrar myndir af herlegheitunum, sem húsmóðirin er að dunda sér með á kvöldin.

Læt þettta duga í bili.

Kveðja

BH


Verslunarmannahelgin.

Aðal ferðahelgi landans er að renna upp.

ÉG man þegar ég var lítil þá fór maður alltaf í sumarbústaðinn með foreldrunum. Svo fór maður nú að eldast aðeins og þá fékk ég  að fara með Adda frænda og Diddu í Galtalæk. Ég fór með þeim 3 verslunarmannahelgar. Það var alveg rosalega gaman. Aðal skemmtunun var að hlusta á hljómsveitirnar á kvöldin og kvöldvökurnar sem voru á litlasviðinu. Ég á margar myndir frá þessum helgum, þar á meðal mynd að Jóni Páli árið sem hann var sterkasti maður heims, einnig af Lindu Pé þegar hún var Ungfrú Alheimur, Spaugstofan kom þarna oft fram. Einnig man ég eftir honum Bjarna Ara. Eitt árið vann hann söngvakeppnina sem var alltaf haldin þarna og svo árið eftir var hann búinn að vinna Látúnsbarkakeppnina og kom fram sem nýr Látúnsbarki. Þetta var mikil upplifun fyrir litla Selfossmær.

Greifarnir komu þarna fram einhverntímann og einnig Kolrassa Krókríðandi. Það var nátturulega frábært að sjá þessar hljómsveitir.

En svo eldist maður og þá er Galtalækur ekki inn. Ég hef nú samt aldrei verið svo fræg að fara á Þjóðhátíð. Allur sóðaskapurinn þar og drykkjan er ekki fyrir mig. Þó mér hafi nú oft langað að fara, bara til að hlusta á hljómsveitirnar, þá hef ég ekki ennþá látið það eftir mér.

En þessa helgina verðum við ekki á faraldsfæti. Bara fínt að vera heima þegar næstum því allir fara útúr bænum. En við þá sem eru á faraldsfæti vil ég segja; akið varlega, betra er að koma seint en aldrei. 

KV.

BH 


PALLI.

Ég sá myndbandið fræga af honum Palla hjá henni Jóhönnu bloggvinkonu. Ég ætlaði að reyna að setja það inn hérna en kann það ekki alveg. En ég verð að segja að þetta er alveg rosalega flott myndband við flott lag. Það hefur held ég ekki farið fram hjá neinum sem þekkir mig að ég er hinn mesti Palla fan!!!!! Hef dýrkað hann og dáð síðan fyrsta platan hans kom út (Stuð). Það er hreinlega allt við þennan mann sem mér finnst æðislegt. Það hefur nú stundum verið gert grín af mér, hvað ég sé að halda uppá þennan H.......titt. En maður lætur það bara sem vind um eyru þjóta.

En semsagt þá er það opinbert. Palli er dýrkaður og dáður af mér. Ef einhver getur hjálpað mér að koma myndbandinu hingað inn þá verð ég alveg rosalega ánægð.

Kveðja

BH


Grænir fingur 2. hluti.

ÉG skrapp til Ingibjargar blómakonu í Hveragerði í dag, eftir vinnu. Keypti fullt, fullt af sumarblómum og eitt lítið tré. Er búin að vera að planta blómunum og gera fínt hérna í kringum mig.

Sumarið er svo sannarlega að skarta sínu fegursta um þessar mundir. Eitthvað annað en síðasta sumar (rigningarsumarið mikla).

Við erum búin að fara í smá frí. Skruppum til Danmerkur. Það var sko æðislegt að kíkja í danaveldið. Hitta alla gömlu félaganna. Það líður allt of langt á milli ferða. EN maður reynir að bæta úr því.

Þangað til næst.

Kv.

BH


Grænir fingur.

var í allt gærkvöld að planta trjám. Mikið er nú gaman að vera úti á kvöldin þegar það er svona þokkalegt logn og gott veður. ÉG á alveg örugglega eftir að dunda mér á síðkvöldum í sumar að ditta að garðinum. Vorum að planta fargurlaufamispil og líka rifsberjatrjám. Svo á ég eftir að setja eitthvað sniðugt í 2 kassa sem ég er með, svona "matjurtarkassa". Ætla að setja fullt af rabbabara þar (rabbabari óskast ef einhver er að grisja) og kannski jarðaber (jarðaber óskast efað einhver er að grisja) og eitthvað annað sniðugt.  Svo ætla ég að skera út beð í garðinum, þar ætla ég að setja haustlauka og kannski einhverjar lágar plöntur. Allaveganna fullt að gera í garðinum.

Vonandi hafið þið það sem allra best.

Knúsið hvort annað.

kv.

BH


Það er komið sumar......

Loksins lét sólin sjá sig, og ég er föst inni að vinna.  Það verður   bara ennþá meiri sól og hiti í júní og júlí. Allavegana vona ég það.

Annars er alltaf nóg að gera í vinnunni. Breytingarnar búnar, svona að mestu og ég brosi gjörsamlega allan hringinn. Þetta er alveg allt annaðGrin

Sonurinn er alltaf að vaxa og dafna. Núna er hann farinn að svara manni með NEI, efað maður er að biðja hann um eitthvað eða að biðja hann um að hætta einhverju sem hann má ekki!!!

En ég vona að allir hafi það gott og knúsið nú hvort annað.

Kveðja

BH


Kvöldið.......

hvað á maður að gera í kvöld. Allt í einu nóg um að velja í sjónvarpinu. Söngvakeppnin eða kostningar.  Bæði jafn leiðinlegt, en......... ætli maður gleymi sér ekki bara í öðru hverju!

Hafið gott kvöld.

kv.

BH sem er búin að kjósa......... og vonandi kaus rétt.


Komin heim.

Mikið er nú gott að vera komin heim. Þó það sé alltaf gaman að ferðast þá er líka alltaf BEST að koma heim.

Var í Milanó á sýningu. Það var frábært að komast aðeins út fyrir landsteinana. Sjá nýju fríhöfnina og svona. En mikið er leiðinlegt að bíða á flugvöllum í 5 tíma, til að fara í tengiflug. En maður verður víst að gera það. Það rigndi í Milanó. Hitinn var ca 18 stig og ég gat bara notað sólgleraugu síðasta daginn því þá var sól og 20 stiga hiti!!!

En margt skemmtilegt gerðist. Við þurftum að fara með leigubíl á sýninguna, því það var verkfall hjá lestunum. Við pöntuðum bíl og vorum alveg að fara að komast á leiðarenda þegar við fórum að taka eftir reyk sem kom frá bílnum. Héldum í fyrstu að þetta ætti bara að vera svona. En þegar reykurinn fór að berast inn í bílinn og Hanna sem sat við hliðina á mér var farin að hverfa í reyk þá stóð okkur nú ekki á sama. Aumingja leigubílstjórinn fór þá út og athugaði með næstu leigubíla hvort við myndum fá far með þeim. Það tókst nú. En semsagt leigubílinn sem við fórum fyrst með  var semsagt að brenna úr sér!!! Aumingja leigubílstjórinn. Með ónýtan bíl í brjálaðri traffík!!!!

Svo fórum við á veitingastað um kvöldið. Við ætluðum að fá okkur dýrindis Ítalska Pizzu, því við vorum nú á Ítalíu!!! Nei veitingastaðurinn var ekki með neinar pizzur, bara pasta. Þannig að við pöntuðum það. Svo kom að því að velja vín. Auðvitað ætluðum við að fá smá rauðvín með. Pöntuðum það! EN þá kom hvítvín! Það fór semsagt allt úrskeiðis sem við ætluðum okkur þann daginn. Enda var mikið hlegið að þessu.

 En vonandi hafið þið haft það  gott.

kv.

BH


Jæja jæja

er ekki kominn tími á nýja færslu?!?! Er ekki alveg að standa mig í þessu. En ég reyni bara betur næst.

Búið að vera nóg að gera í vinnunni. Er svo að kíkka erlendis í  nokkra daga bráðum. Það verður nátturulega bara greit!!! Er að fara í fyrsta skipti frá syninum í nokkra daga! Það er það eina sem skyggir á þessa annars frábæru ferð. En ég og hann þurfum að læra það líka.

Ég trúi því núna að sumarið er alveg á næsta leyti. Norðanmenn hafa sólina núna um helgina og svo fáum við sunnanfólkið hana vonandi um miðja mai og hún verður hérna það sem  eftir lifir sumars! Eigum við ekki bara að gera samning uppá það?

ÉG nenni ekki að tjá mig um pólitík, eins og er frekar vinsælt í þjóðfélaginu í dag. Ég er sú ópólitískasta sem til er, þó víða væri leitað! Það er varla að maður muni eftir að fara á kjörstað þegar verið er að kjósa. Þannig að þið lesendur góðir eigið alls ekki von á einhverjum áróðurs pistlum frá mér!!

Hafið það sem allra best.

 kv,

BH


Vor og aftur Vor

Hún Helga var að minna mig á að nú væri  að koma vor og þá ætti maður að tala aðeins um það!! Gott og vel.

Það er að koma vor og hérna fyrir austan fjall er GRENJANDI RIGNING! Er það ekki dæmigert. Þetta er einmitt vorboðinn "ljúfi". Vona nú samt að sumarið verði gott. ÉG ætla nefnilega að gera svo margt í garðinum. Nenni sko ekki að vera við útistörf þegar það rignir svona á mann. En nóg af þessu bulli.

Hafið það sem allra best og gangið hægt um gleðinnar dyr.

kv.

BH


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband